Hvað er málið með IPA?

Best Food to Compliment Beer

IPA-bjórar hafa verið í tísku hjá bjóráhugamönnum aldarfjórðung (ef hægt er að tala um eitthvað sem tískufyrirbæri sem hefur verið vinsælt í 25 ár). Það sem öðru fremur einkennir þennan bjórstíl er ágengt, beiskt bragð með keim af sítrusávöxtum.

IPA stendur fyrir India Pale Ale. Seinni hluti nafnsins er auðskilinn Pale Ale = ljóst öl. India eða Indland, vísar hins vegar til þess tíma þegar Bretar réðu lögum og lofum á Indlandi. Breska valdstjórnin treysti ekki neysluvatninu á Indlandi og lét því flytja sem mest af drykkjarföngum sjóleiðina frá Bretlandi, þar á meðal allt áfengi.

Bjór hefur takmarkað geymsluþol, eins og flestir vita. En eftir því sem bjórinn er hærri í áfengisprósentu og með meiri humlum, þeim mun betur geymist hann. IPA bjórinn var því humlaður upp úr öllu valdi til að auka líftíma hans. Fyrir vikið komust bresku hermennirnir og embættismennirnir á Indlandi upp á lagið með þennan beiska og frískandi bjór.

Stærstan hluta tuttugustu aldar voru IPA-bjórar flestum gleymdir og ekki framleiddir nema af fáeinum enskum framleiðendum. Á níunda áratugnum tóku bandarísk smábrugghús bjórstílinn upp á arma sína. Með því að nota bragðmikla og ágenga humla frá Kaliforníu má segja að nýr bjórstíll hafi orðið til: bandaríski IPA bjórinn. Hann hefur farið sigurför um bjórheiminn og er eftirlæti bjórgæðinga jafnt sem heimabruggara. Úlfur frá brugghúsinu Borg er prýðisgott dæmi um þetta.

IPA bjórar henta vel sem sumardrykkur. Ýmsum þykir áfengisprósentan þó í það hæsta ef ætlunin er að sitja að sumbli, en IPA bjórar eru gjarnan um 6%. Því hafa verið þróuð veikari afbrigði sem halda þó bragðstyrk sínum, svokallaðir session IPA. Úlfrún frá brugghúsinu Borg er velheppnað dæmi um íslenskan session IPA.

Fleiri greinar

Íslenska brugghúsabyltingin

Íslendingar hafa rankað við sér. […]

Lesa meiraLesa meira

Drykkur Keisaraynjunnar

Á átjándu öld varð rússneska keisaraættin víðfræg fyrir dýran smekk og óhóf á ýmsum sviðum. Rússneskir aðalsmenn fengu snjöllustu gullsmiði álfunnar til að hanna fyrir sig skrautmuni. Bestu klæðskerar seldu varning sinn á uppsprengdu verði í Moskvu og St. Pétursborg og fínustu kokkar Frakklands urðu vellríkir á að elda ofan í yfirstétt Rússlands. […]

Lesa meiraLesa meira

Jólabjórinn: Framlag Norðmanna

Ekki er hægt að segja að Norðurlandabúar hafi lagt margt að mörkum til bjórmenningar heimsins. Helsta undantekningin á því er jólabjórinn, sem segja má að sé í senn ævagömul og kornung hefð. […]

Lesa meiraLesa meira