Sumardrykkurinn Hveitibjór

Best Food to Compliment Beer

Sífellt fleiri kjósa að drekka hveitibjóra sem svaladrykki á sumrin. Á meðan flestum sterkari og bragðmeiri bjórum hentar best hærra hitastig, til að fjölbreyttir bragð- og lyktartónar njóti sín, er hreinlega mælt með því að drekka ýmsar tegundir hveitibjóra vel kalda.

Orðið hveitibjór vísar í kornið sem notað er við bjórgerðina. Í fyrndinni var bjór bruggaður úr hverjum þeim sterkjugjafa sem völ var á: byggi, höfrum, hveiti, rúgi, hirsi og jafnvel maís eða baunum. Með tímanum þróuðust mál þó á þann veg að bygg varð uppistaðan í nær öllum bjór, enda byggkornið ódýr afurð sem auðvelt er að nota í bæði bjór og viský.

Hveitibjórar eru veigamesta undantekningin frá þessu, en í honum eru bæði bygg og hveiti – yfirleitt til helminga. Ekki geta allar tegundir bjórgers unnið jafn vel á hveitinu. Því er að jafnaði notast við ger sem gefur bjórnum auðkennandi bragð og lykt, með mildum tyggjó- og bananatónum. Til að þetta sérkennilega bragð fái að njóta sín er sjaldnast notað mikið af humlum í hveitibjóra, þótt á því séu reyndar áhugaverðar undantekningar.

Þar til fyrir um það bil hálfri öld voru hveitibjórar jaðarbjórtegund sem fáir drukku og framleiðslan bundin við tvö svæði: nokkur héruð í Belgíu annars vegar en nágrenni München í Bæjaralandi hins vegar. Um tíma leit út fyrir að bjórstíllinn myndi verða undir í samkeppninni og deyja út, en skyndilega varð eins og smekkur bjóráhugamanna breyttist og hveitibjórar fóru að falla í kramið á ný. Í dag er hveitibjór sá stíll sem mest er drukkið af í München.

Í raun má segja að hveitibjór skiptist í tvær undirgreinar. Annars vegar er það Weizenbier eða Weißbier í Bæjaralandi. Hann einkennist af bananakeimnum sem áður var nefndur og er helst drukkinn úr háum og ávölum glösum sem fanga hina miklu froðu. Þýski hveitibjórinn getur verið ljós eða dökkur (dunkel). Hann er ýmist síaður svo hann verði tær (kristallweizen) eða gerið og botnfallið fær að vera í flöskunni svo bjórinn verður skýjaður (hefeweizen). Erdinger er sennilega sá þýski hveitibjór sem Íslendingar þekkja best.

Hins vegar er um að ræða Wittbier frá Belgíu. Að hætti Belga er sá bjór kryddaður með ýmsum viðbótarefnum sem skila sér í bragði og lykt. Má þar nefna bæði kóríander og appelsínubörk. Hoegaarden er kunnasta dæmið um Wittbier.

Fleiri greinar

Íslenska brugghúsabyltingin

Íslendingar hafa rankað við sér. […]

Lesa meiraLesa meira

Drykkur Keisaraynjunnar

Á átjándu öld varð rússneska keisaraættin víðfræg fyrir dýran smekk og óhóf á ýmsum sviðum. Rússneskir aðalsmenn fengu snjöllustu gullsmiði álfunnar til að hanna fyrir sig skrautmuni. Bestu klæðskerar seldu varning sinn á uppsprengdu verði í Moskvu og St. Pétursborg og fínustu kokkar Frakklands urðu vellríkir á að elda ofan í yfirstétt Rússlands. […]

Lesa meiraLesa meira

Jólabjórinn: Framlag Norðmanna

Ekki er hægt að segja að Norðurlandabúar hafi lagt margt að mörkum til bjórmenningar heimsins. Helsta undantekningin á því er jólabjórinn, sem segja má að sé í senn ævagömul og kornung hefð. […]

Lesa meiraLesa meira