Byltingin frá Bandaríkjunum

Byltingin frá Bandaríkjunum

Það tíðkaðist lengi hjá evrópskum bjóráhugamönnum að tala óvirðulega um bandarískan bjór. Flestir tengdu Bandaríkin við létta og nánast vatnskennda lagerbjóra sem oftar en ekki voru bruggaðir með maís eða hrísgrjónum til blands við byggið. Og vissulega eru slíkir bjórar enn þeir sem mest eru drukknir í landi hinna frjálsu.

Bjórlandslagið í Bandaríkjunum var einsleitt og örfá risabrugghús drottnuðu yfir markaðnum. Þessi einhæfni var að mörgu leyti afleiðing áfengisbannsins sem sett var þar á þriðja áratug tuttugustu aldar. Bannið varð til þess að nær öll minni brugghús lögðu upp laupana og með þeim tapaðist mikil hefð sem í mörgum tilvikum hafði borist vestur um haf með innflytjendum frá Evrópu. Þegar bannið var afnumið gleyptu fáein stórfyrirtæki markaðinn og aðrir komust ekki að.

Auðvitað voru til þeir Bandaríkjamenn sem kusu að drekka vandaðri og flóknari bjóra, en sá hópur átti aðeins tvo kosti: að treysta á rándýran innfluttan bjór frá Evrópu eða stunda heimabrugg. Fyrir vikið varð til býsna öflugt samfélag heimabruggara í landinu.

Ýmsir samverkandi þættir urðu til þess að heimabruggararnir fóru í stórum stíl að taka áhugamálið sitt skrefinu lengra á níunda og tíunda áratugnum og stofna smábrugghús. Skattareglur ýttu undir slíkan smáiðnað, tækjabúnaður varð ódýrari og einfaldari í meðförum og síðast en ekki síst gaf tilkoma internetsins einyrkjum sem brugguðu bjór hver í sínu horni færi á samskiptum sín á milli og til að selja framleiðslu sína.

Munurinn á bandarískum bjórbruggurum og starfssystkinum þeirra í frægustu evrópsku bjórlöndunum var sá að síðarnefndi hópurinn lagði áherslu á að brugga í samræmi við hefðir og viðurkennda bjórstíla síns lands. Bandaríkjamennirnir voru hins vegar lausir undan oki sögunnar og hikuðu ekki við að velja og hafna úr bjórhefðum Evrópubúa og blönduðu jafnvel saman aðferðum og hráefnum sem íbúum gamla heimsins þótti fráleitt. Afleiðingin varð smábrugghúsa- eða handverksbrugghúsabyltingin sem breiddist loks frá Bandaríkjunum og dreifðist um veröldina.