Smakkur og góðska

Smakkur og góðska

Færeyingar eru okkar bestu vinir og nágrannar, auk þess sem tungumál þeirra og kunnuglegur en um leið framandi ritháttur einstakra orða er sífelld uppspretta kátínu fyrir Íslendinga. Oft er fróðlegt að skoða færeyska sögu og bera saman við Íslandssöguna, þar sem aðstæður í löndunum tveimur eru um margt líkar en þróunin oft með allt öðrum hætti.  Saga bjórsins er gott dæmi um það.

Líkt og Íslendingar brugguðu Færeyingar og drukku sinn bjór á miðöldum. Endurreisn bjórmenningar á nítjándu öld var einnig með sama hætti þar og hér, en sá er munurinn að Færeyingar eignuðust sitt eigið brugghús langt á undan Íslendingum. Bjórgerð og bakaraiðn voru á þessum tíma nátengdar atvinnugreinar og sinntu brauðgerðarhús oftar en ekki jafnframt ölgerð. Það var Símun í Vági, fyrsti menntaði færeyski bakarinn, sem stofnsetti brugghúsið Föroya Bjór árið 1888 og mun það vera annað af tveimur elstu fyrirtækjum Færeyja sem enn starfa. Enn átti aldarfjórðungur eftir að líða þar til Ölgerð Egils Skallagrímssonar var stofnsett í Reykjavík.

Stofnendur Ölgerðarinnar á Íslandi gerðu sér þegar við stofnun árið 1913 grein fyrir því að brugghúsið mætti einungis framleiða öl með lægri áfengisstyrk en 2,25%, enda áfengisbann að skella á. Áfengisbannið hafði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908, þar sem um 60% kosningabærra (sem voru einungis karlar) greiddu banninu atkvæði. Færeyingar héldu hins vegar sína þjóðaratkvæðagreiðslu árið áður. Þar fengu bæði konur og karlar að taka afstöðu til fjögurra spurninga um sölu og afgreiðslu á bæði léttu og sterku áfengi. Niðurstaðan var mun afdráttarlausari: 96-97% kjósenda samþykktu bann.

Sá var þó munurinn á íslenska og færeyska áfengisbanninu að það færeyska tók aðeins til sölu í verslunum og veitingastöðum. Póstverslun með áfengi frá Danmörku var áfram heimil, en hugmyndaríkir stjórnmálamenn komu með krók á móti bragði – þeir einir gátu leyst út áfengi sem voru skuldlausir við skattinn!

Reynt var að afnema áfengisbannið með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1973, en aftur reyndust bindindismenn yfirsterkari. Að þessu sinni hlutu þeir rétt rúm 60% atkvæða. Skoðanakannanir sem gerðar voru um afstöðu Íslendinga til afnáms bjórbannsins um svipað leyti benda til að álíka niðurstaða hefði fengist hér á landi.

Það var ekki fyrr en árið 1992 að áfengisbanninu var aflétt í Færeyjum og landsmenn fengu sitt eigið „Ríki“ þegar Rúsdrekkasøla Landsins tók til starfa. Líkt og á Íslandi hefur mikil vakning átt sér stað í bjórgerð á allra síðustu árum. Föroya Bjór er sem fyrr langstærsti bjórframleiðandi Færeyja, en hefur fengið mikla og góða samkeppni á liðnum árum frá smábrugghúsinu Okkara. Eldri Færeyingar tengja vörumerkið Okkara raunar fremur við eldri framleiðsluvörur sama fyrirtækis, sápu og smjörlíki.

Okkara, sem státar af slagorðinu „smakkur og góðska“, hefur verið duglegt við að þróa bjór í samvinnu við erlend brugghús, þar á meðal Mikkeller og Borg brugghús.